anireal

10

Eftir rétt rúmlega tvær vikur í Indónesíu er tímabært að ég haldi för minni áfram. Eins og stendur sit ég (hehe) með ylvolgan tebolla og hálf étna bollu á flugvellinum í Lombok, eftir einum of marga kaffibolla og of lítið af venjulegum mat. Ég þarf að pissa en ég nenni ekki að hreyfa mig. Innritun hefst eftir rúman klukkutíma, ég kom hingað fyrir fjórum. Hér sitja tveir hópar sem virðast vera í sömu hugleiðingum og ég, ágætis stólar og internet. Hugur minn er uppfullur af minningum þegar ég lít yfir farinn veg. Vikur og mánuðir sem líða svo hratt. Ég hef fallið fyrir stöðum, menningu og fólki. Ég sé staði sem ég verð að heimsækja aftur, staði sem ég verð að rannsaka betur og segja frá. Ég hef myndað sterkari tengingu við fólk og á skemmri tíma en mig hefði getað órað fyrir að væri mögulegt. Hef tekið óvæntar ákvarðanir og einnig fylgt plani. Ég á enn eftir að sjá almennilega hvað þessi ferð leiðir af sér en mikil ósköp hvað þetta gerir mér gott. Ég á bágt með að trúa því að í lok næsta mánaðar sé ég komin heim. Ég hlakka mikið til að hitta fólkið mitt heima, leika með ykkur öllum og sjá sólina tylla tánum á Gróttuvita áður en hún spyrnir sér aftur upp. Reykvísk sumarkvöld, er eitthvað betra? Hér er þó margt sem ég kvíði að segja skilið við. Aldrei bless, bara sjáumst síðar.

Eftir Víetnam tók við ferð um Malasíu, til Kuala Lumpur sem hefur síðar orðið að einhvers konar homebase (er einmitt á leiðinni þangað núna), Penang og Melaka þar sem ég var aðallega að borða en líka að skoða alls konar og kynnast góðu fólki. Fór í óvænta ferð til Singapore þar sem ég var líka aðallega að borða en fór sömuleiðis í brúðkaup, hoppaði um á alls konar trampólínum og lék mér á róluvelli eins og annað fullorðið fólk. Fór aftur til Tælands..í sjö eyja leiðangur við Krabi, til Chiang Mai og Pai. Skoðaði fíla og fiska, fór á mótorhjól, fór í partí, hitti gamla vini og nýja. Eftir það tók við Indónesía með yoga og hugleiðslu, sundferðum, fjallgöngu og leti við sjóinn. Ekki eitt einasta andartak var slæmt.

Skammt frá Bangsal, þar sem bátar koma og fara mörgum sinnum á dag til Gili eyjanna þriggja (en virðist þó vera langt frá ys, þys og svindlum hafnarinnar), sá ég yfir hrísgrjónaökrunum þrjá flugdreka á sveimi. Ég sá fyrir mér börnin hlaupa hlæjandi á eftir þeim, berfætt eða í slitnum sandölum. Flop flap, flip flop. Skömmu síðar tek ég eftir fjórða flugdrekanum en sá situr fastur í tré. Barn með augun full af tárum leynist þá kannski einhvers staðar, en það er erfitt að ímynda sér hérna í Indónesíu þar sem allir brosa út að eyrum og bjóða góðan daginn. Inhale. Exhale. Smile is love.

Terima kasih Indonesia. Takk fyrir mig.